Um Orkey
Um Orkey

Orkey ehf. var stofnað á Akureyri árið 2007 með það að markmiði að þróa sjálfbærar orkulausnir fyrir íslenskan sjávarútveg. Upphaflega var áherslan á framleiðslu jurtaolíu úr innfluttum kanólafræjum til að leysa svartolíu af hólmi í fiskiskipaflotanum. Þrátt fyrir forhönnun og áhugaverðar viðræður við kanadíska samstarfsaðila var verkefnið sett í dvala vegna óvissu um hagkvæmni. Árið 2008 beindist fókusinn að framleiðslu lífdísils úr úrgangsefnum, svo sem notaðri steikingarolíu og dýrafitu. Með styrk úr Vaxtarsamningi Eyjafjarðar hófst þróun tilraunaverksmiðju og árið 2010 var lífdísilverksmiðja Orkeyjar gangsett á Akureyri. Hún var að mestu leyti smíðuð á staðnum og getur framleitt allt að 300 tonn af lífdísil árlega. Árið 2023 var Orkey keypt af Gefn ehf., íslensku nýsköpunarfyrirtæki sem vinnur að ferlum þar sem sköpuð eru verðmæti úr aukaafurðum og úrgangi frá vinnslu líffitu um leið og CO₂ er bundið. Stofnandi Gefnar, Ásgeir Ívarsson, hafði áður komið að uppbyggingu Orkeyjar á fyrstu árum fyrirtækisins, sem undirstrikar sterka tengingu milli fyrirtækjanna tveggja og sameiginlega framtíðarsýn þeirra í sjálfbærni og nýtingu líffituúrgangs. Orkey býr yfir mestri reynslu á Íslandi í lífdísilframleiðslu og er í kjörstöðu til að nýta þá þekkingu til að umbreyta fituríkum úrgangi í verðmæti — og um leið draga úr losun tugþúsunda tonna af CO₂-ígildum árlega. Í samstarfi við Líforkuver ehf., sem vinnur að uppbyggingu lífmassavers á Dysnesi í Eyjafirði, hyggst Orkey stórauka framleiðslugetu sína. Fyrirtækin hafa undirritað viljayfirlýsingu um að Orkey taki við allri fitu sem fellur til við vinnslu dýraafurða hjá Líforkuveri. Þessi nálægð og samlegð mun styrkja hringrásarhagkerfið í verki.
Lífdísill úr úrgangi – raunhæf, hagkvæm og áhrifarík orkulausn
Lífdísill er eitt aðgengilegasta endurnýjanlega eldsneytið í boði í dag. Ólíkt mörgum öðrum grænum orkukostum, eins og vetni eða rafeldsneyti, krefst lífdísill lítilla sem engra breytinga á tækjabúnaði eða innviðum. Það gerir orkuskipti bæði hagkvæm og fljótvirk.
Framleiðsla lífdísils úr úrgangi er jafnframt mjög orkusparandi í samanburði við framleiðslu vetnis, metanóls eða ammóníaks. Þetta þýðir að hægt er að skipta hratt og hagkvæmt úr jarðefnaeldsneyti yfir í lífdísil – með minni losun gróðurhúsalofttegunda og betri nýtingu hráefna.
Úrgangur verður verðmæti
Í dag fer stór hluti fituríks úrgangs til urðunar eða útflutnings. Orkey hyggst nýta þessa auðlind til fulls. Talið er að á Íslandi falli til yfir 10.000 tonn af fitu árlega, sem annars fer til spillis. Með auknu landeldi gæti það magn farið yfir 20.000 tonn á ári – sem dugar til að framleiða allt að 20.000 tonn af lífdísli.
Það samsvarar allt að 12% af núverandi olíuþörf fiskiskipaflotans.
Orkey á einnig í nánum samskiptum við útgerðir fiskiskipa og fraktskipa, sem sýna aukinn áhuga á vistvænu eldsneyti. Prófanir á lífdísil Orkeyjar eru þegar hafnar um borð í völdum skipum og má geta fiskiskip Samherja notaði lífdísil frá Orkey í um áratug.
Samkvæmt lögum munu skipaflotar þurfa að nota sífellt meira hlutfall af endurnýjanlegu eldsneyti á næstu árum, og hefur það kallað á aukið samtal við Orkey um afhendingu og lausnir.
Heildaráhrif og verðmæti kolefniseininga
Ávinningurinn af minni notkun jarðefnaeldsneytis og bættri meðhöndlun úrgangs mun endurspeglast í verulegum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda – bæði innanlands og á heimsvísu. Framleiðsla og urðun fituríks úrgangs veldur í dag gríðarlegri losun; hvert tonn af slíku efni sem urðað er losar að lágmarki 28 tonn af CO₂-ígildum.
Þar að auki felur þessi starfsemi í sér möguleika á miklum verðmætum í formi kolefniseininga, sem munu aukast enn frekar með hækkandi verði losunarheimilda í framtíðinni.