Saga Orkeyjar
Saga Orkeyjar

Orkey ehf. var stofnað á Akureyri árið 2007 með það að markmiði að þróa sjálfbærar orkulausnir fyrir íslenskan sjávarútveg. Upphaflega var áherslan á framleiðslu jurtaolíu úr innfluttum kanólafræjum til að leysa svartolíu af hólmi í fiskiskipaflotanum. Þrátt fyrir forhönnun og áhugaverðar viðræður við kanadíska samstarfsaðila var verkefnið sett í dvala vegna óvissu um hagkvæmni. Árið 2008 beindist fókusinn að framleiðslu lífdísils úr úrgangsefnum, svo sem notaðri steikingarolíu og dýrafitu. Með styrk úr Vaxtarsamningi Eyjafjarðar hófst þróun tilraunaverksmiðju og árið 2010 var lífdísilverksmiðja Orkeyjar gangsett á Akureyri. Hún var að mestu leyti smíðuð á staðnum og getur framleitt allt að 300 tonn af lífdísil árlega. Árið 2023 var Orkey keypt af Gefn ehf., íslensku nýsköpunarfyrirtæki sem vinnur að ferlum þar sem sköpuð eru verðmæti úr aukaafurðum og úrgangi frá vinnslu líffitu um leið og CO₂ er bundið. Stofnandi Gefnar, Ásgeir Ívarsson, hafði áður komið að uppbyggingu Orkeyjar á fyrstu árum fyrirtækisins, sem undirstrikar sterka tengingu milli fyrirtækjanna tveggja og sameiginlega framtíðarsýn þeirra í sjálfbærni og nýtingu líffituúrgangs. Orkey býr yfir mestri reynslu á Íslandi í lífdísilframleiðslu og er í kjörstöðu til að nýta þá þekkingu til að umbreyta fituríkum úrgangi í verðmæti — og um leið draga úr losun tugþúsunda tonna af CO₂-ígildum árlega. Í samstarfi við Líforkuver ehf., sem vinnur að uppbyggingu lífmassavers á Dysnesi í Eyjafirði, hyggst Orkey stórauka framleiðslugetu sína. Fyrirtækin hafa undirritað viljayfirlýsingu um að Orkey taki við allri fitu sem fellur til við vinnslu dýraafurða hjá Líforkuveri. Þessi nálægð og samlegð mun styrkja hringrásarhagkerfið í verki.